Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn. Það hefur verið ansi líflegt í Hraunkoti s.l. mánuð og kylfingar í óða önn að koma sér í form fyrir sumarið. Vorið lofar góðu og unnið er hörðum höndum þessa dagana að koma vellinum í stand. Hinn árlegi hreinsunardagur verður haldin 10. Maí, því miður höfum við þurft að færa hann aðeins aftar í dagskránna vegna veðurs uppá síðkastið og verður hann með hefðbundnu sniði. Að loknu hreinsunarstarfi verður grillað og síðan verður ræst út af öllum teigum í fyrsta hring sumarsins. Hvaleyrarvöllur verður svo formlega opnaður föstudaginn 11. Maí. Hafa skal í huga að margar hendur vinna létt verk og vonumst við til að sjá sem flesta. Til að skrá sig í hreinsunarmótið þarf að smella á hnappinn neðar í fréttinni.
Við ætlum að byrja vinnuna klukkan 09:00 og klára þetta á 3 tímum. Eftir vinnudaginn verður boðið uppá grillaða hamborgara og pylsur að hætti Sveins Sigurbergssonar og síðan verður völlurinn opnaður fyrir golfleik með móti sem þáttakendur í Hreinsunardeginum hafa einungis þáttökurétt í. Ræst verður út af öllum teigum klukkan 13:00.
Nokkrar breytingar verða á starfsliði Keilis í ár en Bjarni Þór Hannesson vallarstjóri lætur af störfum nú í lok apríl eftir farsælt starf. Við þökkum honum fyrir frábær störf og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Við munum þó áfram njóta krafta Bjarna í formi ráðgjafar þannig að þekking hans mun því nýtast Keili enn um sinn.
Þeir félagar Guðbjartur Ísak Ásgeirsson og Arnaldur Freyr Birgisson munu taka við sem vallarstjórar en þeir hafa unnið með Bjarna s.l. ár og erum við því í góðum höndum. Við óskum þeim velfarnaðar og hlökkum til góðs samstarfs.
Dagskrá sumarsins verður með nokkuð hefðbundnu sniði. Meistaramótið færist fram um viku og Hvaleyrarbikarinn verður svo á sínum stað í vikunni á eftir.
Framkvæmdir á Sveinskotsvelli ganga vel. Stærsta framkvæmdin er uppbygging á nýrri níundu flöt og samkvæmt áætlun ætti yfirborðsvinna við flötina að klárast um miðjan Maí og vonandi verður hægt að hefja leik á nýrri níunda flöt í lok Júlí. Samhliða þessu hefur verið lokið við gerð fimm nýrra teiga og aðrir fimm verða kláraðir á næstu vikum en áætlað að þeir verði leikhæfir í lok Maí
Við horfum því björtum augum til sumarsins, höfum í huga að sýna tillitssemi innan vallar sem utan og muna að gott flæði í leiknum skapar ánægju fyrir alla kylfinga.
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður Keilis