Að venju verður Einvígið á Nesinu haldið mánudaginn 1. ágúst næstkomandi á Nesvellinum á Seltjarnarnesi. Þetta mót hefur verið haldið frá 1997 og á þessum tíma hafa mörg félög eða samtök sem láta sér hag barna varða njótið góðs af. Í ár er það Umhyggja sem er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra sem fær allan ágóðan. DHL hefur styrkt þetta mót frá upphafi. Við hvetjum alla til að gera sér ferð og kíkja á þessa golfsnillinga. Um morgunin fer fram höggleikur og síðan tekur við shoot-out keppni þar sem einn kylfingur dettur út á hverri holu, þangað til einn sigurvegari er eftir. Björgvin Sigurbergsson fjórfaldur Íslandsmeistari mun taka þátt í ár og verður gaman að fylgjast með Bjögga sem hefur ekki mikið verið að hreyfa við golfpokanum sínum undanfarin ár. Eftirtaldir munu taka þátt í einvíginu í ár:
Alfreð Brynjar Kristinsson, klúbbmeistari GKG 2016
Arnór Ingi Finnbjörnsson, klúbbmeistari GR 2016
Aron Snær Júlíusson, GKG, sigurvegari Einvígisins 2015
Björgvin Sigurbergsson, GK, fjórfaldur Íslandsmeistari í golfi.
Hlynur Geir Hjartarson, klúbbmeistari GOS 2016.
Karlotta Einarsdóttir, klúbbmeistari NK 2016
Kristján Þór Einarsson, klúbbmeistari GM 2016
Oddur Óli Jónasson, klúbbmeistari NK 2016
Ragnhildur Sigurðardóttir, klúbbmeistari GR 2016
Úlfar Jónsson, GKG , sexfaldur Íslandsmeistari.