Framkvæmdir

Unnið var í þremur nýjum brautum á árinu og voru nýframkvæmdir fyrirferðarmeiri en nokkru sinni fyrr.

Þó svo mesta vinnan við nýja 16. braut hafi farið fram sumarið 2019 var enn margt ógert ef opna átti brautina í ár. Að auki glompuhleðslum voru margir hlutir sem hlúa þurfti að.
Fyrstu tvo mánuði sumarsins fór mikill tími í sáningar, tyrfingar, valtanir og aðrar lagfæringar.
Samtals voru unnar 760 vinnustundir við undirbúning opnunar á brautinni á þessu ári.

Líkt og við 16. brautina fengum við gröfumann að utan til að sjá um landmótun á verðandi 18. flöt og umhverfi. Vegna takmarkanna í flugsamgöngum var heimsókn hans þó frestað og byrjuðum við ekki að móta fyrr en 21. júlí. Vel gekk að fylla í og móta svæðið og þann 6. ágúst sáðum við og dúkuðum yfir. Samhliða mótuninni lögðum við vökvunarkerfi í flötina og svuntuna og hlóðum glompurnar tvær.

Dúkarnir voru teknir af 16 dögum síðar og ánægjulegt var að sjá hversu vel hafði spírað. Eftirfylgnin samanstóð svo af reglulegum áburðargjöfum, yfirsáningu og nokkrum sláttum og fór svæðið mjög heilbrigt inn í veturinn. Stefnt er að því að opna flötina síðsumar 2021 og ríkir almenn bjartsýni um að það gangi eftir. Í júlí og ágúst voru unnar samtals 612 vinnustundir af starfsmönnum klúbbsins við gerð flatarinnar.

Þriðji partur nýframkvæmda ársins var svo endurbygging og mótun gömlu 13. flatarinnar á Hvaleyrinni (verðandi 14.), ásamt glompuhleðslu og tyrfingum á braut. Seinnipart sumars byrjuðu starfsmenn að hlaða glompur á braut. Glompurnar eru mikil smíði og var verkefnið því nokkuð tímafrekt.

Stór sár voru einnig í brautinni eftir framvæmdir síðasta árs og slétta þurfti stór svæði sem síðan voru tyrfð. Vökvunarkerfi í brautina hafði þó verið lagt sumarið 2019.

Upprunalega áttu framkvæmdir við flöt eingöngu að fela í sér uppfyllingu og endurhleðslu glompa en eftir ígrundun starfsmanna og hönnuðar var ákveðið að nýtni uprunalegu flatarinnar væri ekki í samræmi við aðrar flatir á vellinum og umhverfið lítt spennandi.

Veður var milt framan af vetri og ákveðið var að ráðast strax til atlögu, og aftari hluti flatar bæði hækkaður og breikkaður. Fyllt var upp í tvær af gömlu glompunum og tvær glompur endurgerðar. Umhverfi flatar var einnig endurmótað. Öll vinna við þessar framkvæmdir var unnin af vallarstarfsmönnum og ánægjulegt að sjá hve reynslumikið teymi okkar er orðið í framkvæmdum sem þessum. Vinnan við verðandi 14. flöt tók tæpan mánuð og samtals fóru í flötina 857 vinnustundir. Á þessu ári unnu starfsmenn okkar 1257 vinnustundir við framkvæmdir á brautinni í heild.

Nauðsynlegt er að geta opnað fyrir leik á þessa braut næsta sumar ef framkvæmdir við nýja par 3 holu (17.) eiga að ganga eftir á næsta ári. Mikill léttir var því að hafa náð að klára þessa framkvæmd og hafa einnig bætt brautina til muna með ákvörðun um breytingar.

Vegna framkvæmda við nýja 18. flöt á Hvaleyrarvelli þurfti að rjúfa malbik milli framkvæmdasvæðis og púttflatar við skálann. Ákveðið var að best væri að lagfæra þær skemmdir eins fljótt og unnt væri. Malarstígurinn sem lá frá 9. flöt á Sveinskotsvelli og upp í átt að skála var einnig orðinn slæmur og því var upplagt að nýta tækifærið og malkbika það í sömu heimsókn. Í september var því nýtt malbik lagt á tvo kafla, samtals um 100 metra og höfum við nú óslitinn malbikaðan þjónustuveg frá vélaskemmu að 9. flöt á Sveinskotsvelli. Öll undirvinna var unnin af starfsmönnum Keilis og Hlaðbær Colas sá um malbikunina. Styrkur fékkst hjá Hafnarfjarðarbæ fyrir framkvæmdinni.

Æfingasvæði (Hraunkot)

Í áætlunum þessa árs var gert ráð fyrir talsverðu viðhaldi á æfingasvæðinu í Hraunkoti, 13 ár eru síðan svæðið var opnað og kominn tími á viðhald.

Golfhermar voru endurnýjaðir, fjárfest var í nýjustu tækni af hermum frá Foresight. Keyptir voru tveir hermar af gerðinni Foresight „Hawks“ til að nota við golfhermana og nýtt greiningartæki var keypt í golfkennarherbergi af gerðinni Foresight „Quad“. Þessi tækni er talin sú allra fremsta í dag og gefur kylfingunum góða greiningu á höggum sínum.

Það var einnig kominn endurnýjunartími á púttflötina, var gamla púttflötin orðin stjórnlaus af hraða og var tækifærið notað til að endurgera yfirborð flatarinnar einnig. Nýjar holur voru steyptar og gervigras keypt frá Hollandi á flötina. Púttflötin lýkist nú mun meira því sem við eigum að venjast útá velli.

Sölukerfi og boltasöluvélarnar í Hraunkoti þörfnuðust líka mikils viðhalds, var fenginn sérfræðingur frá Range Servant til að koma taka út kerfið og varahlutir pantaðir til að koma því í samt lag. Það sem kom útúr þessari athugun var að kerfið var farið að eyðileggja alla bolta sem blásið var í gegnum bílastæðið og er því búið núna að koma í vegfyrir að þetta haldi áfram að gerast. Má gera ráð fyrir því að æfingaboltar endist mun betur í kerfinu núna.

Því miður gerði Covid það að verkum að nýjir boltar á svæðið bárust seint og illa. Var það orðið þannig á tímabili að gæði bolta var þannig að nánast var ekki hægt að bjóða kylfingum uppá þessi gæði. Sem betur fer leystist úr á þessu á miðju sumri og voru nánast allir boltarnir endurnýjaðir og eru núna í fínu standi.
Sveinskotsvöllur

Sveinskotsvöllur hefur þurft að þola ákveðna gagnrýni síðustu ár. Hvort sem það er vegna skipulags, lengd brauta, villtum svæðum eða öðru. Nú er svo komið að endanlegu skipulagi Sveinskotsvallar hefur verið náð. Lítið var um framkvæmdir þetta árið en kláraður var rauður teigur á 7. braut sem markar endalok breytinga á vellinum. Vatn var leitt í teiga á 5. braut í sumar og vökvunarkerfi lagfært á nokkrum svæðum. Ennþá er stefnt að því að öll helstu svæði vallarins verði útbúin sjálfvirku vökvunarkerfi á næstu árum.

Mikið af villta karganum á vellinum hefur verið sleginn niður og okkar trú að endanleg mynd fari að verða til í slætti. Sveinskotsvöllur hefur verið á sama sláttu- og áburðar prógrammi og Hvaleyrarvöllur að undanskildum helgasláttum fyrir mót og önnur sérstök tilefni. Tappagötun á öllum flötum vallarins í haust mun svo vonandi leiða til betri spilaflatar og áfram verður unnið í því að bæta grassamsetningu elstu flatanna.

Nokkuð bar á misskilningi varðandi slátt á Sveinskotsvelli í sumar og réttast þykir að leiðrétta þær hugmyndir hér. Nokkrar athugasemdir bárust um að Sveinskotsvöllur væri illa sleginn og gras mikið á brautum. Oftar en ekki voru þær athugasemdir gerðar með samanburði við aðra 9 holu velli í nágrenninu. Í kjölfar athugasemda var sláttur oft athugaður og ekkert óeðlilegt fundið að slætti. Algengt er að 9 holu vellir séu slegnir í einni sláttuhæð frá teig að flöt og jafnvel milli brauta. Þar sem krafan síðustu ár hefur verið að Sveinskotsvöllur sé í sömu gæðum og Hvaleyrarvöllur og þykir okkur eðlilegt að völlurinn sé sleginn á sambærilegan hátt, enn meira fyrirgefandi þó. Sveinskotsvöllur hefur þannig verið sleginn í 6 sláttuhæðum. Flatir í 4,5mm, teigar í 8mm, brautir í 10mm, brautarsvuntur í 25mm, kargi í 35mm og villt svæði. Með þessu fyrirkomulagi er ekki óeðlilegt að slegið sé úr hærra grasi ef slegið er utan brauta og virðist misskilningurinn um illa slegnar og loðnar brautir eiga rætur sínar að rekja til þess. Þrátt fyrir að allar holurnar séu par 3 hefur markvisst verið unnið að því að stækka brautirnar eins og unnt er ásamt því að brautarsvuntur eru tvöfalt breiðari en á Hvaleyrarvelli. Með þessu fyrirkomulagi ætti að nást sama ásýnd og á Hvaleyrarvelli en brautir töluvert meira fyrirgefandi. Völlurinn verður vissulega meira krefjandi ef slegið er út fyrir brautir en á sama tíma ætti hann að höfða til breiðari markhóps og bjóða upp á öll þau golfhögg sem kylfingar kunna að lenda í og æfa.

Nú þegar öll vinna við skipulagsbreytingar hefur klárast munum við halda áfram vinnu við að koma spilaflötum í besta mögulega stand. Enn eru teigar og flatir sem eiga nokkuð í land með að vera í hæsta gæðaflokki og mun það áfram vera okkar helsta markmið. Vegvísar voru steyptir niður við hverja flöt síðsumars og munu þeir bæði einfalda kylfingum að rata um völlinn jafnt sem gera ásýnd hans betri þar sem gömlu skiltin áttu það til að snúast og/eða leggjast niður við minnsta álag.

Útseld vinna

Ólíkt síðustu árum kom Golfklúbburinn Keilir ekki að neinu leiti að umhirðu eða rekstri Golfklúbbs Setbergs. Síðustu ár hafa um 2 stöðugildi farið í beina umhirðu þar, svo heildarumfang útseldarar þjónustu minnkaði umtalsvert með breytingunum.

Að öðru leiti var útseld þjónusta með sama móti og síðustu ár. Stærsti hluti þeirrar vinnu var við slátt og sérverkefni á knattspyrnuvöllum ÍTH. Áfram sá klúbburinn um slátt og viðhald á púttflötum við Hrafnistu í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.

Svipaður fjöldi sláttukefla kom í brýningu til okkar og síðasta vetur, örlítið færri en árið áður. Ástæða þess er helst að minni klúbbar senda kefli sín oft ekki til brýningar nema annað hvert ár og búist er við fleiri keflum í vetur. Brýningar eru hafnar af krafti hjá okkur núna og erum við að fara hraðar af stað en síðustu ár.

Í vor sönduðum við öll knattspyrnusvæði ÍTR og götuðum þau svæði svo í haust. Samtals um 220.000 m2 að stærð. Enn fer grassvæðum hjá borginni fækkandi en ekki er langt síðan að umrædd svæði voru 330.000m2. Þjónusta við Laugardalsvöll hélst óbreytt og sáu starfsmenn Keilis um allar úðanir þar, ásamt öðrum sérverkefnum. Venjulega hefur klúbburinn veitt auka þjónustu vegna tónleikahalds á Valbjarnarvelli og Laugardalsvelli en svo var ekki í ár.

Þjónusta utan höfuðborgarsvæðis var áfram þónokkur og þá aðallavega við knattspyrnusvæði í nágranna sveitarfélögum. Helst við götun og söndun.

Kargi

Mikið hefur verið rætt um óslegin svæði síðustu ár og margar skoðanir á þeim litið dagsins ljós. Síðustu tvö árin hefur markvisst verið dregið úr þessum svæðum og gott jafnvægi fundist.

Svæðin hafa verið slegin 1x á ári og grasinu safnað og er það gert til þess að fjarlægja lífræn næringarefni sem brotna niður með grasinu ef það fær að liggja. Síðasta ár keypti klúbburinn sláttuvagn með safnkassa og markmið næstu ára er að slá svæðin amk 2x á ári. Ekki tókst að slá nema lítið brot af villtu svæðunum í sumar, en vinna við það er hafin aftur og vonast er til að ná stórum hluta áður en árinu lýkur.

Greinilegt er að þessi vinna hefur skilað árangri og mörg villt svæði farin að þynnast út nú þegar. Ferlið tekur þó nokkurn tíma en með tveimur sláttum á ári erum við viss um að miklar breytingar muni eiga sér stað næstu árin.
Merkingar

Haldið var áfram að smíða vegvísa, teigmerki og aðrar merkingar fyrir golfvöllinn. Með þessari vinnu er verið að vinna að heildarútliti allra merkinga. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem einhverfir einstaklingar sjá um smíðina undir stjórn Guðlaugs Georgssonar.

Þessi vinna hefur bætt mjög heildarásýnd golfvallanna og verður gaman að vinna áfram að þessu verkefni með Guðlaugi og hans fólki. Í viðhorfskönnun Keilis hefur verið kvartað yfir því að illa sjáist á skiltin og voru því stafir málaðir fyrir síðasta sumar til að sjá betur á skiltin.
Vélakaup og aðstaða starfsmanna

Lengi hefur verið ljóst að aðstæður í vélaskemmu klúbbsins eru óviðunandi. Ekki er pláss fyrir nema hluta af tækjabúnaði og þá er skemman undirlögð af tækjum og vinnupláss vélvirkja lítið sem ekkert. Starfsmannaaðstaða er einnig lítil og engan vegin í takt við þann fjölda starfsmanna sem starfa á vellinum. Vegna þessa var ákveðið að sækja um byggingarreit fyrir nýrri vélageymslu. Sótt var um reit milli núverandi vélaskemmu og gamla æfingaskýlisins og var umsóknin samþykkt af bæjarstjórn seint í haust. Sótt var um leyfi fyrir byggingu á allt að 600m2 geymsluhúsnæði. Með nýju húsi væri hægt að koma öllum tækjakosti fyrir þar og umbreyta þá núverandi vélaskemmu í almennilega starfsmannaaðstöðu og verkstæði. Okkar von er að unnt verði að fara í þessa framkvæmd sem allra fyrst og ljóst er að þessar breytingar munu skipta sköpum fyrir starfsumhverfið okkar jafnt sem líftíma tækja okkar. Af þessum sökum hefur ekkert verið gert til bætinga í vélaskemmu þetta árið.

Líkt og síðasta vetur hefur klúbburinn leigt geymslupláss fyrir tæki yfir vetur.

Með kaupum á tveimur brautarvélum og röffvél í vor hefur vélafloti klúbbsins tekið umtalsverðum breytingum. Losun fjögurra eldri véla sem saman voru 63 ára gamlar, yngir meðalaldur vélaflotans svo um munar. Þó svo robota- og rafmagnssláttuvélar séu farnar að ryðja sér til rúms eru enn engar almennilegar lausnir komnar fyrir slátt á stærri- svæðum sem viðhalda lágum sláttuhæðum, en vonir eru bundnar við að næstu útskipti brautarvéla geti orðið í átt að umhverfisvænni lausnum.

Með góðu viðhaldi hefur tekist að halda í vélar sem annars væru úr sér gengnar en með 4-5 vélum á jafn mörgum árum kæmist flotinn í ákjósanlegt stand.

Nokkuð hefur einnig verið fjárfest í tækjum öðrum en sláttuvélum síðustu ár og erum við nú í stakk búnir til að takast á við flest sérverkefni með góðu móti, ásamt því að geta boðið öðrum klúbbum og félögum þjónustu í hæsta gæðaflokki.

Lokaorð Vallarstjóra

Þrátt fyrir skrítna tíma í samfélaginu, og heiminum öllum, var árið 2020 ekki svo slæmt hjá Golfklúbbnum Keili. Með nýjum áskorunum verða til ný verkefni, sem leiða svo til betri og skilvirkari vinnu til frambúðar.

Þrátt fyrir alls kyns boð og bönn í samfélaginu gátum við haldið golfvöllum opnum í allt sumar án meiriháttar breytinga. Vissulega hefur aukin aðsókn til lengri tíma áhrif á spilafleti og erfiðlega gekk að loka verstu sárum í hrauninu. Aukið álag á umferðarfleti, þá sérstaklega af völdum bíla, jafnt kylfinga sem og starfsmanna, fékk okkur einnig til að hugsa til framtíðar og sjá fyrir hvernig hægt sé að halda svo mikilli umferð um völlinn án þess að hann gjaldi fyrir. Engin lausn er komin við þeim vandamálum en við þessu verður að bregðast og öruggt er að ráðist verður í aðgerðir um leið og þær liggja fyrir.

Gríðarlega stórt skref var tekið í átt að nýju heildarskipulagi Hvaleyrarvallar og án ófyrirsjánlegra vandræða munum við opna tvær nýjar brautir næsta sumar. Það væru þá 3 nýjar brautir á tveimur árum. Samheldni, reynsla og ósérhlífni starfsmanna skipti sköpum í sumar og munu langir og erfiðir vinnudagar vonandi verða þess virði þegar útkoma erfiðisins verður orðin stór partur af framtíðar vellinum okkar.

Þrátt fyrir að um þriðjungur alls vinnustunda í sumar hafi farið í nýframkvæmdir tókst að halda völlunum okkar í góðu standi, en þó óneitanlega hlutir sem sitja þurftu á hakanum. Skurði í brautir í hrauninu var til að mynda frestað til næsta árs, sem og slætti á vilta karganum, sem þó er hafinn og fer langt á þessu ári. Vonandi geta meðlimir verið stoltir af þeirri vinnu sem fram fór á svæðinu okkar í sumar líkt og við starfsfólkið. Við hlökkum svo sannarlega til nýs árs, með nýjum áskorunum sem leiða vonandi til áframhaldandi framfara á Hvaleyrinni.

Fyrir hönd vallastarfsmanna
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson