Golfvellirnir
Viðhald valla var með svipuðu móti og síðustu ár. Vegna kalskemmda í flötum 2-5 á fyrri 9 holum Hvaleyrarvallar þurftum við þó að auka inngripin þar, sérstaklega á flötum 2, 4, 5 og aftari hluta 3. Þrátt fyrir tíðar yfirsáningar, áburðargjafir og beinar viðgerðir reyndist erfitt að ná 2. flötinni til baka og fylla í skemmdu svæðin. Nokkuð var farið að spíra í skemmdum um miðjan júlí en óveður í kring um Hvaleyrarbikarinn olli því að mikill sjór (salt) komst á flötina. Flötin í heild bar ekki mikinn skaða af og var saltinu skolað niður úr jarðveginum í kjölfar óveðursins. Nýju plöntunum í skemmdunum leið þó ekki jafn vel með þetta allt saman og hægðist aftur töluvert á bataferlinu. Tvö jarðvegssýni voru tekin úr 2. flötinni og var ekki að sjá nein vaxtarhamlandi skilyrði í jarðveginum. Undir lok tímabils höfðu sárin lokað sér að hluta og mikilvægt verður að vera á tánum í vor og beita öllum þeim aðferðum sem hægt er til að loka skemmdunum fyrir sumarið.
Mosi var var nokkuð áberandi á nokkrum flötum í sumar og var honum haldið niðri með því að bæta járnsúlfati í úðablöndur í hvert skipti sem úðað var. Þó mosinn hafi ekki aukist yfir tímabilið leyst okkur ekki á það hversu vel honum hafði liðið í vor og ákveðið var að leigja tappagötunarvél í haust og tappagata flatir 2-6 á Hvaleyrarvelli. Einnig voru allar flatir á Sveinskotsvelli og allar æfingaflatir gataðar. Árangursríkasta leiðin í baráttunni við mosann reyndist vera að gera mörg smá göt í svæðin og nudda língresisfræjum í götin, sú leið er þó mjög tímafrek. Munum við halda því áfram næsta sumar og reyna að finna fljótlegri leiðir til þess.
Á flötunum hefur viðhaldið sem fyrr einkennst af tíðum áburðargjöfum með litlum skömmtum í senn. Þannig er hraða flatanna haldið jöfnum yfir tímabilið og hætta á sýkingum lágmörkuð. Vatnsmiðlunarefnum var úðað á flatirnar um það bil einu sinni í mánuði til að viðhalda jöfnu rakastigi sem og bæta eiginleika jarðvegsins til að taka við og hleypa vatni í gegn um efstu lög. Vaxtaletjandi efnum var einnig úðað á flatir til að hægja á vexti og þétta grassvörð.
Jarðvegssýni sem tekin voru úr öllum flötum í vor sýndu þau að enginn skortur var á nauðsynlegum næringarefnum í jarðveginum og var áburður í sumar því að mestu köfnunarefni. Heildar köfnunarefnismagn sem úðað var á flatir í sumar var 93 kg af köfnunarefni per hektara. Önnur næringarefni á flatir voru: 5kg/ha Járn, 7kg/ha fosfór og 10kg/ha kalí.
Allar flatir voru sandaðar þrisvar yfir tímabilið, tvisvar í vor og einu sinni í sumar. Beðið er eftir góðum skilyrðum fyrir síðustu söndun þegar þetta er ritað. Sú söndun mun verða þéttari en þær fyrri og þá sérstaklega til að fylla í holur sem mynduðust við tappagötun.
Túnvinglablöndu var sáð í allar flatir í vor með gatasáningu og gekk sú sáning almennt vel. Sáð var í valda teiga, með túnvinglum, vallarsveifgrasi og língresi eftir aðstæðum. Engar brautir fengu heilsáningu en sáð var í skemmdir, þá sérstaklega í hrauninu í vor.
Teigar og brautir fundu svo sannarlega fyrir umferðinni í sumar og reyndist starfsmönnum oft erfitt að fylla í öll þau kylfuför sem mynduðust, þá sérstaklega á brautum. Mikið var borið á brautir í sumar samanborið við fyrri ár og fóru í heildina 105kg/ha af köfnunarefni á brautirnar, en sú áburðargjöf dreifðist ekki jafnt yfir allar brautir líkt og á flötunum.
Á teigum átti það sama við. Sumir teigar fengu talsvert af áburði og aðrir lítið. Ljóst er að með aukinni umferð þurfum við að bregðast betur við öllum þeim kylfuförum sem myndast og erum við að skoða leiðir til þess að gera þá vinnu skilvirkari á komandi árum.
Alla jafna var daglegt viðhald, sláttutíðni og sláttuhæðir fyrir hvert svæði á þennan veg í sumar:
Brautir 2-3x í viku – 10mm
Svuntur og teigar 3x í viku – 8mm
Flatir 3-4x sláttur og 3x völtun í viku – 4,5mm
Brautarsvuntur 2x – 25mm
Kargi 1-2x í viku
Flymo, orf of snyrtivinna 1-2x í viku
Flatir voru úðaðar með sveppalyfjum í haust í tveimur skömmtum sem hjálpar til við að halda sýkingum í lágmarki í vetur og vor. Vel hefur tekist með slíkar úðanir síðustu vetur og hafa þær skemmdir sem orðið hafa á flötum nánast eingöngu komið til vegna kals.